Hoppa yfir valmynd

CTF - keppni í netöryggi

19. okt. 2020

CERT-IS í samstarfi við SANS halda CTF keppni föstudaginn 23. október.

CTF stendur fyrir Capture the Flag og er stafrænn ratleikur þar sem þátttakendur fá aðgang að vefsíðu sem SANS hefur búið sérstaklega til og er markmiðið að finna stafræna fána sem faldir hafa verið á síðunni.

Fánarnir eru faldir á þann hátt að eina leiðin til að komast að þeim er með því að tileinka sér aðferðafræði og hugsunarhátt sem tölvuþrjótar nýta sér þegar þeir reyna að brjótast inn í tölvukerfi.

Keppnir sem þessar eru nauðsynleg þjálfunartól fyrir forritara, netstjóra, kerfisstjóra og alla sem koma að rekstri og hönnun tölvukerfa því keppnirnar hjálpa þátttakendum oft að sjá í hve mörg horn þarf að líta þegar kemur að rekstri net-, tölvu- og vefkerfa.

Notast verður við Tomahawque sem er sérstakt CTF þjálfunarkerfi frá SANS en SANS er eitt stærsta fyrirtæki í heimi í þjálfun og vottun starfsfólks sem starfar í netöryggi í upplýsingatækni.

Nánari upplýsingar um keppniskerfið má finna á vefsíðu þess og til að skrá sig í keppnina er fólki bent á viðburðasíðu CERT-IS