Hoppa yfir valmynd

Gagnalekar og samfélagsmiðlar

15. maí 2023

Samfélagsmiðlar eru gjarnan nýttir til að sýna frá daglegu lífi okkar. Flest erum við meðvituð um að pósta ekki myndum af viðkvæmum gögnum t.d. vegabréfum, greiðslukortum og flugmiðum. Tony Abbot, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, lenti einmitt illa í því eftir að hafa birt mynd af flugmiðanum sínum.

Viðkvæmar upplýsingar eiga það þó til að sleppa í gegn, sérstaklega í bakgrunni mynda sem lifa aðeins í ákveðinn tíma (story) eða í myndböndum á Snapchat eða TikTok. 

Viðkvæmar upplýsingar sem rissaðar voru á post-it miða, vinnuskjöl eða önnur viðkvæm gögn af tölvuskjá og uppsett forrit á vinnutölvum geta gefið óprúttnum aðilum mikilvægar upplýsingar. Þó áherslan sé á einhverju í forgrunni eiga viðkvæm gögn það til að læðast með í bakgrunninum.

Vert er að brýna fyrir fólki að birta ekki myndir með starfstöðvum sínum í bakgrunni, nema að slökkt sé á skjám. Einnig ætti aldrei að birta myndir af starfsmannaskírteinum eða skírteinum fyrir ráðstefnur, sérstaklega ef það er strikamerki á þeim.

Þó myndin hér til hægri gæti virkað sakleysisleg í fyrstu má þar sjá mögulega viðkvæmar upplýsingar tengdar fjármálum á skjá viðkomandi. Einnig má sjá lykilorð á post-it miða sem festur er á skjáinn. 

Til viðbótar vitum við það útfrá myndinni að aðilinn sem deildi henni notar Windows 11 auk nokkurra forrita sem eru uppsett á vélinni. 

Stundum þarf ekki samfélagsmiðla til að upplýsingar leki. 

skjáskot af samfélagsmiðli

Með auknum vinsældum fjarvinnu þarf fólk að vera meðvitað hvar þau sinna vinnunni sinni.  Gott er að spyrja sig hvort einhver gæti verið að gægjast yfir öxlina á sér á kaffihúsinu eða í flugvélinni og séð þannig það sem er á tölvuskjánum

Upplýsingar sem gætu virst í frystu vera ómerkilegar og sakleysislegar geta gefið óprúttnum aðilum mikilvæga innsýn inn í störf okkar og vinnustað. Það hvaða forrit eru notuð af ákveðnum vinnustöðum, hvert stýrikerfið er eða  hverju fyrirtækið er að vinna að geta gefið hugmyndir að sérsniðnum árásum.

Ráðleggjum við fólki sem vinnur mikið utan síns vinnustaðar og þarf að vinna með viðkvæmar upplýsingar að gera öryggissráðstafanir, svo sem að snúa baki í vegg eða notast við skjásíu til að forðast að fólk geti lesið það sem er á skjánum.